Leita á síðunni:

 

Subway opnar um mánaðarmótin

- 15/05/2012
Vestfirskir verktakar að störfum í húsnæði Subway á Ísafirði
Vestfirskir verktakar að störfum í húsnæði Subway á Ísafirði
Skyndibitastaðurinn Subway opnar í Neista á Ísafirði um mánaðarmótin samkvæmt upplýsingum frá Gunnari Skúla Guðjónssyni framkvæmdastjóra Subway á Íslandi. Gunnar segir að stefnan hafi verið sett á að opna fyrr en eðlilegar tafir hafi orðið þar á þar sem panta þurfti mikið af tækjabúnaði erlendis frá. Gunnar er bjartsýnn á að Subway muni reka sig vel á Ísafirði, en staðurinn er sá fyrsti sinnar tegunar á Vestfjörðum.

„Við erum með tvo staði á Akureyri, einn á Egilsstöðum og einn á Selfossi. Þannig að við erum nokkuð dreifðir. Ég held að þetta leggist vel í Ísfirðinga,“ segir Gunnar.

Tekið af bb.is

Vestfirskir verktakar eru framúrskarandi fyrirtæki

- 23/02/2012
Framúrskarandi verktakar
Framúrskarandi verktakar
Vestfirskir verktakar ehf., á Ísafirði var framúrskarandi fyrirtæki á síðasta ári samkvæmt greiningu Creditinfo. Ríflega 32 þúsund fyrirtæki eru skráð í hlutafélagaskrá og reyndust 245 þeirra uppfylla skilyrði Creditinfo eða innan við 1%. Fram kemur á vef Creditinfo að vottun sem þessi þekkist víða erlendis en hins vegar sé á stærri mörkuðum algengara að skilyrði vottunar séu ekki eins ströng og ákveðið var að setja hérlendis. Það er mat Creditinfo að á litlum markaði sé mikilvægara að draga fram styrkleika fyrirtækja sem birtast í stöðugleika í rekstri fremur en niðurstöður einstakra rekstrarára. „Slíkar kröfur eru líklegri til að undanskilja sveiflukenndan árangur stærri eignarhalds- og móðurfélaga en undirstrika frekar styrkleika fyrirtækja í virkri starfsemi.“...

"Svarta pakkhúsið" á Flateyri flytur búferlum

- 08/12/2011

Vestfirskir verktakar fengu á dögunum það skemmtilega verkefni að flytja elsta hús Flateyrar "Svarta pakkhúsið" um set. Við sameiningu Ísafjarðar, Flateyrar og Suðureyrar eignaðist Ísafjarðarbær húsið. Undanfarin ár hefur Minnjasjóður Önundarfjarðar unnið ötullega að því að finna pakkhúsinu nýtt hlutverk. Fyrirhugað er að húsið verði sýningarhús utan um harðfisk- og skreiðarverslun á Íslandi og er flutningurinn fyrsta skrefið í að það verði að veruleika. Flutningurinn var vel undirbúinn og gekk vel þrátt fyrir smá éljagang.

Í samtali við Jóhönnu Kristjánsdóttur, Flateyri, kom fram að "Svarta pakkhúsið" sem í matsgerðum ber nafnið Fiskgeymsluhúsið var byggt árið 1867 af Hjálmari Jónssyni verslunarmanni til geymslu á saltfiski og stóð fyrir aftan verslunarhúsnæði sem hann átti og rak. 1883 eignaðist Ásgeirsverslun húsið og var í eigu hennar til ársins 1918 þegar sameinuðu íslensku verslanirnar tóku við rekstrinum. Framan á húsinu er skilti þar sem ritað er bæði á íslensku og dönsku "Sameinuðu Íslensku Verzlanirnar" og er frá þeim tíma. Í kringum 1925 eignaðist Kaupfélag Önfirðinga bæði verslunina og fiskgeymsluhúsið. Árið 1956 flutti Kaupfélagið í nýtt verslunarhúsnæði ofar í götunni og hefur Svarta pakkhúsið verið notað til ýmissa hluta síðan.

Framkvæmdir á upptökubraut að ljúka

- 11/10/2011
Upptökubrautin í Súðavíkurhöfn
Upptökubrautin í Súðavíkurhöfn
« 1 af 3 »
Verið er að leggja lokahönd á upptökubraut fyrir smábáta innan við Frostabryggju í Súðavík. Það eru Vestfirskir verktakar sem séð hafa um uppsetningu brautarinnar, en að sögn Ómars Más Jónssonar, sveitarstjóra í Súðavík er hér um að ræða mikið mannvirki sem mun koma sér vel fyrir smábátaeigendur. „Hér hefur verið mikil þjónusta við sjóstangaveiðimenn síðan 2006. Smábátum hefur fjölgað töluvert en aðstaða fyrir þá hefur ekki verið góð og í raun ekki til staðar. Súðavíkurhreppur hefur verið með þetta verkefni í deiglunni í um sex ár en þetta er eitt af þeim verkefnum sem við getum sótt um að Siglingastofnun taki þátt í að fjármagna með okkur,“ segir Ómar Már um tilkomu upptökubrautarinnar.

Tekið af bb.is