Leita á síðunni:

 

Djúpvegur fær verðlaun

- 04/03/2013
Hermann og Sveinn Ingi ásamt Hreini Haraldssyni vegamálastjóra
Hermann og Sveinn Ingi ásamt Hreini Haraldssyni vegamálastjóra
Hönnun og frágangur við vegagerð Djúpvegs (61) Eyri/Reykjanes – Hörtná, fékk í gær sérstaka viðurkenningu Vegagerðarinnar, Vörðuna. Á þriggja ára fresti veitir Vegagerðin viðurkenninguna vegna hönnunar og frágangs vegamannvirkja. Vestfirskir verktakar tóku við viðurkenningu úr hendi Hreins Haraldssonar vegamálastjóra, en fyrirtækið sá um byggingu Mjóafjarðarbrúar. Tilgangurinn með veitingu Vörðunnar er að efla vitund um útlit og frágang mannvirkja meðal starfsmanna og verktaka Vegagerðarinnar, stuðla að umræðu þar um og að vitna um ákveðinn vilja yfirstjórnarinnar á þessu sviði.

Umhverfis- og öryggisnefndir Vegagerðarinnar tilnefndu þau mannvirki, sem þær töldu skara framúr á árunum 2008-2011 og skoðaði dómnefnd allar tilnefningar og metur þær. Í ár voru umræddar vegaframkvæmdir á Djúpvegi (61) hlutskarpastar, en í mati dómnefndar segir m.a. að vegurinn sé vel lagður og gjörbreyti samgöngum um Djúp til hins betra.

Í mati dómnefndar segir: „Landslagið mefram veginum er vel lagað að óhreyfðu landi og uppgræðsla hefur tekist vel. Útsýnið af veginum er mjög fallegt og brúin yfir Mjóafjörð er glæsilegt og minnisstætt kennileiti í landslaginu. Aðrar brýr eru vel útfærðar. Áningarstaðir við brúna í Mjóafirði eru vel staðsettar til útivistar.“

Einnig kemur fram að frágangur við verkið sé góður.

Sextán verkefni voru tilnefnd og voru þrjú þeirra á Vestfjörðum auk sigurvegara, en það voru Djúpvegur (61) um Þröskulda og Djúpvegur (61) Bolungarvíkurgöng. Öll þrjú verkefnin komust í úrslit í valinu ásamt sex öðrum verkefnum.



Tekið af bb.is