Leita á síðunni:

 

Vestfirskir verktakar fá D-vottun

- 04/12/2012
Ferdinand Hansen frá SI afhendir Hermanni viðurkenningu um D-vottun
Ferdinand Hansen frá SI afhendir Hermanni viðurkenningu um D-vottun
Vestfirskir verktakar ehf., hafa staðist úttekt á fyrsta þrepi áfangaskiptrar gæðavottunar Samtaka iðnaðarins og fengið D-vottun. Fyrirtækið er það fyrsta á Vestfjörðum sem fær vottun SI. D-vottun er fyrsti hluti gæðavottunarkerfis SI sem tekið er upp í fjórum áföngum. Í því felst að rekstur fyrirtækis er gerður skilvirkari. Fyrirtækið fer í gegnum stefnumótun þar sem afkoma hvers verks eða vöru er skilgreind. Vestfirskir verktakar voru stofnaðir 8. október 2003 þegar starfsemi þriggja fyrirtækja, Eiríks og Einars Vals hf., GS trésmíði og Múrkraftur, sameinuðust. Markmið Vestfirskra verktaka er að veita alhliða fyrsta flokks þjónustu á sviði nýbygginga, almenns viðhalds og endurbóta. Hjá fyrirtækinu starfa í dag 25 manns en höfuðstöðvar fyrirtækisins eru á Skeiði 3, Ísafirði. 

Að sögn Hermanns Þorsteinssonar eins eiganda Vestfirskra verktaka hefur fyrirtækið lengi unnið eftir skilgreindu gæðakerfi Samtaka iðnaðarins en það er fyrst nú sem þeir ákveða að leggja í sjálft vottunarferlið. D-vottun er fyrsta þrepið á þeirri vegferð og reiknar Hermann með því að þeir muni sækja um C-vottun sem er næsta þrep og sjá svo til með framhaldið. Hermann segir að fyrirtækið leggi mikla áherslu á að þróa gæðastjórnun og eftirlit jafnt og þétt enda fari kröfur af hálfu verkkaupa sífellt vaxandi.

Tekið af bb.is