Leita á síðunni:

 

Framkvæmdum við áhorfendastúku á Torfnesi miðar ágætlega

- 04/12/2012
Áhorfendastúkan Torfnesi
Áhorfendastúkan Torfnesi
Þrátt fyrir rysjótt veðurfar hefur vinna við byggingu 540 sæta áhorfendastúku á Torfnesi gengið framar vonum. Vestfirskir verktakar vinna nú að fyrsta áfanga verksins og að sögn Hermanns Þorsteinssonar hjá Vestfirskum verktökum miðar verkinu sæmilega og hafa tafir vegna veðurs einungis verið 2-3 dagar síðustu misserin. Haldið verður áfram á meðan veður leyfir en í verkinu felst uppsteypa og smíði áhorfendabekkja og að koma fyrir forsteyptum einingum sem mynda gólf stúkunnar og jafnfram loftið yfir skotsal undir efstu hæðum hennar. Áhorfendastúkan verður þá fullkláruð að utan, en innra rými fokhelt. 

Þegar verktakarnir hafa lokið sínum hluta verksins munu Skotíþróttafélag Ísafjarðarbæjar sjá um og kosta sjálft uppbyggingu æfinga- og félagsaðstöðu í innra rými. Og aðstandendur ST2012 sjá um lokafrágang við stoðvegg og dren að baki stúkunnar, jarðvegsfrágang og fleira sem tilheyrir fyrsta áfanga verksins. 

Eignarhaldsfélagið ST2012 var stofnað af áhugafólki um byggingu stúkunnar, en Jóhann Torfason er í forsvari fyrir þann hóp. Að sögn Jóhanns er reiknað með því að fyrsti áfangi framkvæmdanna verði fullfrágenginn áður en leiktíð hefst á komandi vori, en fyrsti leikur ársins er venjulega haldinn í maí. í öðrum áfanga felst síðan frágangur félaga- og klúbbaðstöðu og bygging þaks yfir stúkuna. Félagið gerði samning við Ísafjaðrabæ um að bærinn tæki yfir mannvirkið að fyrsta áfanga loknum og tæki þá jafnframt að sér að ljúka verkinu.

Tekið af bb.is