Leita á síðunni:

 

Smíðavöllur rekinn á Ísafirði

- 11/06/2008
Samningur um rekstur smíðavallar á Ísafirði var undirritaður í sal bæjarstjórnar Ísafjarðarbæjar í morgun. Smíðavöllurinn var opnaður á Ísafirði kl. 13 í dag og verður hann starfræktur til 11. júlí. Um er að ræða tilraunaverkefni á vegum Ísafjarðarbæjar, Vestfirskra verktaka og Eimskipa. Samkvæmt samningnum munu Vestfirskir verktakar útvega timbur og nagla en Eimskip leggur til vörubretti sem verða grunnar að kofunum. Ísafjarðarbær leggur til landsvæði og eitthvað af verkfærum. Unglingar frá Vinnuskólanum verða á staðnum milli kl. 13 og 16 á daginn og er þá hægt að fá lánuð verkfæri. Þá verður á sama tíma hægt að leita til starfsmanns Vestfirskra verktaka sem hefur aðsetur á verkstæði þeirra.

Forsaga málsins er sú að átta ára gömul stúlka, Karólín Þóranna Lárusdóttir, sendi í vetur bréf til bæjarstjóra og óskaði eftir lóð undir kofa. Bærinn er með þessu að koma til móts við hana og aðra unga athafnamenn.

Völlurinn verður opinn allan daginn en aðstoð er hægt að fá á umræddum tíma. „Við hjá Ísafjarðarbæ vonum svo að þetta tilraunaverkefni takist vel og allir gangi þarna vel um“, segir í tilkynningu frá íþrótta- og tómstundafulltrúa.


Tekið af bb.is