Leita á síðunni:

 

Miklar framkvæmdir hjá Gámaþjónustu Vestfjarða

- 25/10/2007
Vestfirskir verktakar steypa 400 fm gólfplötu
Vestfirskir verktakar steypa 400 fm gólfplötu

Verið er að leggja lokahönd á framkvæmdir við starfsstöð Gámaþjónustu Vestfjarða að Kirkjubóli 3 í Skutulsfirði, en verið er að gera húsnæðið klárt til að endurvinnsla geti farið þar fram. „Við höfum verið að taka húsið í gegn undanfarin tvö ár og ég á von á því að síðasti smiðurinn ljúki sér af í dag“, segir Ragnar Ágúst Kristinsson, framkvæmdastjóri Gámaþjónustunnar.

Meðal annars er búið að klæða húsið að utan og steypa 400 fermetra gólfplötu. Eins og greint hefur verið frá hefur Gámaþjónustan fest kaup á pressu fyrir endurvinnanlegt sorp. „Við erum að skipa út öðrum gámnum til útflutnings í dag og erum þá komin 44 tonn af pappa sem við flytjum út. Sem er nokkuð gott miðað við að við erum ekki byrjuð að fullu.“, segir Ragnar. Aðspurður hvenær endurvinnslan muni hefjast að fullu segir Ragnar að vandi sé um slíkt að spá. „Þetta kjagar af stað en þetta tekur mun meiri tíma en ég ætlaði mér.“


Uppi eru hugmyndir að íþróttafélögin í bænum gætu tekið að sér það verkefni að fara á heimili á svæðinu til að safna saman endurvinnanlegu sorpi og fyrir viðvikið fá þau greitt skilagjald úr Úrvinnslusjóði, sem ætti að auka tekjur félaganna. Endurvinnslan gerir það væntanlega að verkum að álag minnkar í sorpbrennslustöðinni Funa á Ísafirði, en þjónustan kemur til með að standa til boða á öllum þeim stöðum sem Gámaþjónusta Vestfjarða sinnir.

Gámaþjónustan hefur ekki einungis tekið húsnæði sitt í gegn heldur hefur hún nýverið opnað nýja heimasíðu sem unnin er hjá Netheimum. „Enn er verið að vinna í heimasíðunni og betrumbæta hana en hún er samt voða fín“, segir Ragnar.

Tekið af bb.is