Leita á síðunni:

 

Vesturafl í nýtt húsnæði

- 25/02/2009
Vesturafl flytur í Mánagötu 6a
Vesturafl flytur í Mánagötu 6a
Starfsendurhæfingarstöðin Vesturafl hefur flutt í nýtt húsnæði að Mánagötu 6a á Ísafirði. „Við erum alveg rífandi hamingjusöm með húsnæðið en það er stærra en það gamla og hentar betur undir starfsemina að mörgu leiti. Til að mynda er aðgengið betra þar sem við erum bara á einni hæð núna“, segir Harpa Guðmundsdóttir iðjuþjálfi hjá Vesturafli. Hlutverk Vesturafls er að efla geðheilsu íbúa samfélagsins með rekstri geðræktarmiðstöðvar og að sögn Hörpu gengur starfsemin afar vel. „Það hefur mikill tími að undanförnu farið í flutninginn og frágang vegna hans en við vonumst til að allt verði komið á fullt innan skamms. Annars hefur starfsemin gengið mjög vel. Á síðasta ári, sem var fyrsta heila árið sem við störfuðum, voru skráðar 1227 komur sem þýðir að það hafi komið um fimm manns til okkar alla dagana sem opið var. Það er nokkuð gott ef miðað er við svipaðar stofnanir annars staðar á landinu“, segir Harpa.

Að sögn Hörpu eru fastir skjólstæðingar miðstöðvarinnar um 20 talsins. „Það eru ekki alltaf sömu andlitin en við erum með rétt undir 20 föst nöfn á lista.“ Stefnt er að því að nýja húsnæðið verði kynnt með opnu húsi þegar Vesturafls-liðar hafa lokið við að koma sér fyrir, en áætlað er að það verði fljótlega í byrjun mars.

Aðspurð hvort komur til Vesturafls hafi aukist með versnandi efnahagsástandi segist Harpa ekki hafa orðið vör við það. „Ekki ennþá allavega. En við erum viðbúin því ef svo verður. Vonandi veit fólk af okkur og að það geti leitað til okkar ef þess þarf.“

Starfsendurhæfingin Vesturafl var stofnuð 2007 fyrir fólk með skert lífsgæði sem vegna veikinda eða aðstæðna getur ekki tekið virkan þátt í samfélaginu, í vinnu eða inni á heimili. Til þess geta talist geðsjúkdómar, krabbamein, hjartasjúkdómar, langtíma atvinnuleysi og ýmislegt fleira. Í miðstöðinni er boðið upp á fjölbreytta þjónustu við hæfi hvers og eins. Þar hefur fólk tækifæri til að veita aðstoð þegar þeim líður vel og fá aðstoð þegar illa gengur. Starfsemin nær til íbúa Ísafjarðarbæjar, Bolungarvíkur og Súðavíkur.

Að rekstri Vesturafls stóðu félagsmálaráðuneytið, Ísafjarðarbær, Bolungarvíkurkaupstaður, Súðavíkurhreppur og Rauði krossinn.

Tekið af bb.is