Leita á síðunni:

 

Skemmdarvargar í nýbyggingu Grunnskólans

- 09/11/2007
Hlynur, Nonni og Garðar
Hlynur, Nonni og Garðar
« 1 af 2 »

Í gær voru framin skemmdarverk í nýbyggingu Grunnskólans á Ísafirði og er það ekki í fyrsta skipti sem slíkt gerist. Að sögn Garðars Sigurgeirssonar, verkstjóra hjá Vestfirskum Verktökum, farið var inn í bygginguna seinni partinn í gær og perur brotnar og plast rifið. Svipuð atvik hafa átt sér stað um þrisvar til fjórum sinnum og fyrir um það bil þremur vikum síðan var tjónið það mikið að lögreglan var kölluð til og skýrsla gefin um málið. Þá voru dýrar gasperur brotnar og tjónið nam um 100 þúsund krónum.


„Það er erfitt að verja þetta því við erum með plast í öllum gluggum og því auðvelt fyrir óprúttna að komast inn. Eftir 2 vikur koma gluggarnir og þá hættir þetta líklega. Hér er nú engu spennandi að stela, þannig að þetta eru hreinlega bara skemmdarverk. Það er enginn á vakt að staðaldri en við erum að einhverju leyti tryggðir fyrir svona.

Mig grunar að þetta séu krakkar, en þetta er ákaflega hvimleitt því það þarf oft ekki nema tvo til að skemma fyrir hinum, þau hafa að öðru leyti verið til fyrirmyndar,“ segir Garðar.

Tekið af bb.is