Leita á síðunni:

 

Mjóafjarðarbrú opnuð fyrir umferð

- 04/09/2009
Kristján Möller samgönguráðherra og Hreinn Haraldsson vegamálastjóri
Kristján Möller samgönguráðherra og Hreinn Haraldsson vegamálastjóri
« 1 af 2 »
Mikill mannfjöldi var saman kominn í Mjóafirði í dag þegar Kristján Möller, samgönguráðherra, opnaði formlega 130 metra langa stálbrú í Ísafjarðardjúpi. Þar með var tekinn í notkun nýr vegarkafli frá Eyri í Ísafirði að Hörtná í Mjóafirði. Fyrsti bíllinn til að aka yfir brúna eftir formlega opnun hennar var bifreið samgönguráðherra en mikil umferð var á strax á fyrstu mínútunum eftir opnunina. Eftir athöfnina var haldið samsæti í Reykjanesi þar sem borðin svignuðu undan kræsingum en þar voru saman komnir um 170 gestir. Margir héldu tölu í tilefni af þessum merka áfanga en í ræðu samgönguráðherra kom fram að hann vonaði að önnur fagnaðarstund yrði í þessum mánuði og vitnaði þar til nýs vegar um Arnkötludals sem stefnt er að verði opnaður fyrir veturinn.

Vegarkaflinn frá Eyri í Ísafirði að Hörtná í Mjóafirði er samtals 28,1 km að lengd. Á þessum vegarkafla eru þrjár brýr samtals 200 m að lengd. Verkið hófst árið 2005 og var unnið í þremur útboðsverkum sem gerð er grein fyrir hér á eftir. Vegir og brýr á Reykjafjörð og Vatnsfjarðarós voru teknar í notkun haustið 2008 og notaðir yfir veturinn. Nú er verkinu að mestu lokið en eftir nokkur frágangur og uppsetning vegriða.

Vegir og brýr á Reykjafjörð og Vatnsfjarðarós voru hannaðar af starfsmönnum Vegagerðarinnar, en brú á Mjóafjörð af verkfræðistofunni Eflu (áður Línuhönnun). Verktaki við vegagerð í öllum verkunum var KNH ehf. Ísafirði en með honum voru Vestfirskir verktakar ehf. Ísafirði við brúargerð, ásamt ýmsum undirverktökum. Starfsmenn Vegagerðarinnar sáu um eftirlit ásamt Tækniþjónustu Vestfjarða á Ísafirði.

Tekið af bb.is